Fréttir & Tilkynningar
Síðastliðinn föstudag, 5. desember, bauð DNG færavindur smábátaeigendum á Norðurlandi í heimsókn í húsakynni fyrirtækisins á Akureyri. Viðburðurinn var skipulagður í samstarfi við Klett, félag smábátaeigenda á Norðurlandi eystra, og tókst afar vel. Aðsókn var mjög góð og var gestum fagnað með kynningu á framleiðslu, tækninýjungum og framtíðarþróun færavinda. Heimsóknargestir komu víða að af Norðurlandi og einnig frá systurfélögum bæði austan og vestan við Eyjafjörð. Sjómenn, bátseigendur og áhugafólk um tækni fengu tækifæri til að fylgjast með hvernig vindurnar eru smíðaðar, ræða við starfsfólk og skoða það sem er nýjast á markaðnum. Sérstök áhersla var lögð á DNG R1 vinduna sem hefur notið mikillar velgengni árið 2025. Gestir fengu að prófa vinduna, stilla hana og spyrja spurninga um virkni og eiginleika. R1 hefur slegið í gegn fyrir einstaklega gott fisknæmi, sem hefur gert hana að vinsælu vali meðal smábátaeigenda. Viðburðurinn reyndist afar árangursríkur og stefnt er að því að endurtaka hann. Þá vonumst við einnig til að geta staðið fyrir sambærilegum viðburðum í nánustu framtíð fyrir smábátafélög víðar um landið. Daði Tryggvason, verkefnastjóri DNG færavinda, var mjög ánægður með viðtökurnar: „Það er okkur alltaf ánægjulegt að fá sjómenn og bátseigendur til okkar. Umræður dagsins voru frábærar og við fengum bæði gagnlegar ábendingar og mikla hvatningu. Þetta samstarf er lykilatriði í áframhaldandi þróun vörunnar.“ Bjarni Reykjalín Magnússon, formaður Kletts, þakkaði fyrir góðar móttökur og lagði áherslu á mikilvægi þess að félagið geti boðið félagsmönnum sínum upp á svona fræðslu og kynningar. Hann sagði slíka viðburði efla tengsl milli framleiðenda og notenda og styðja við öfluga smábátaútgerð á svæðinu. Heimsóknin endaði á léttum veitingum og lifandi umræðum um vertíðina fram undan og framtíðarþróun í færabúnaði. Ljóst er að áhugi er mikill – og DNG færavindur heldur áfram að leiða veginn í nýsköpun fyrir íslenska sjómenn.

Í þriðja sinn í röð stendur Velferðarsjóður Eyjafjarðar fyrir sölu á Velferðarstjörnunni, í samstarfi við Glerártorg og Slippinn Akureyri. Nýtt útlit stjörnunnar fyrir jólin 2025 er hannað af Elvu Ýr Kristjánsdóttur og Kristínu Önnu Kristjánsdóttur, verkefnastjórum markaðsmála á Glerártorgi, og framleitt og styrkt af Slippnum Akureyri líkt og undanfarin ár. Sala Velferðarstjörnunnar hefst laugardaginn 8. nóvember kl. 13 á Glerártorgi og er mikilvægur hluti af fjáröflun sjóðsins. Allir sem koma að verkefninu gefa vinnu sína og allur ágóði rennur óskiptur til efnaminni einstaklinga og fjölskyldna á Eyjafjarðarsvæðinu. Velferðarstjarnan verður í sölu fram að jólum hjá Lindex og Heimilistæki/Tölvulistinn/Kúnígúnd á Glerártorgi. „Velferðarstjarnan er fallegt og merkingarbært jólaskraut – tákn samstöðu og kærleika í aðdraganda jólanna,“ segir Guðný Jóna Þorsteinsdóttir, ráðgjafi sjóðsins. Áætlað er að ný hönnun stjörnunnar verði kynnt á hverju ári, sem eykur safngildi hennar fyrir þá sem safna henni ár frá ári. Um Velferðarsjóð Eyjafjarðar Velferðarsjóður Eyjafjarðar er samstarfsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálpræðishersins á Akureyri, Mæðrastyrksnefndar Akureyrar og Rauða krossins við Eyjafjörð, sem frá árinu 2013 hafa unnið saman að því að styðja einstaklinga og fjölskyldur á Eyjafjarðarsvæðinu sem standa höllum fæti. Þörf fyrir aðstoð hefur aukist verulega á undanförnum árum. Um jólin 2024 bárust yfir 500 umsóknir, og svipaðs fjölda er að vænta í ár. „Okkur hefði ekki tekist þetta án velvilja Glerártorgs og starfsmanna Slippsins, sem leggja málefninu lið með ómetanlegu framlagi. Við hvetjum íbúa svæðisins til að kaupa stjörnuna og sýna þannig samstöðu og hlýju í aðdraganda jólanna,“ segir Kristín Björk Gunnarsdóttir, formaður stjórnar Velferðarsjóðs Eyjafjarðar. Velferðarsjóðurinn starfar allt árið með það að markmiði að styðja efnaminni einstaklinga og fjölskyldur. Allur stuðningur fer óskiptur í kaup á gjafakortum í matvöruverslunum, sem afhent eru þeim sem þurfa á hjálp að halda. Þeir sem vilja leggja verkefninu lið geta sent tölvupóst á jolaadstod@gmail.com eða lagt inn á reikning 0302-26-003533.
Í sviðsljósinu
DNG R1 Færavindan
Færavindur DNG hafa leikið stórt hlutverk á undanförnum árum í framþróun handfæraveiða og eru mikil tímamót nú þegar fyrirtækið er komið fram með nýja kynslóð af vindu sem heitir R1 en næsta kynslóð á undan var C6000 vindan sem kom fyrst á markað árið 1995.



