Viðskiptaskilmálar Slippsins ehf.
ALMENNIR VIÐSKIPTASKILMÁLAR SLIPPSINS AKUREYRI EHF.
1.
Gildissvið og skilgreiningar
1. Ef ekki er skriflega samið um annað gilda þessir almennu skilmálar í heild sinni og eru hluti af verksamningi sem Slippurinn Akureyri ehf. (“verktaki”) gerir við verkkaupa, eða þann sem pantar verk (“viðskiptamaður”), óháð því hvort verksamningur sé gerður eða um hvers konar verk er að ræða.
2. Þessir almennu skilmálar gilda því um hverskyns viðgerðir, viðhald, uppsetningu, skoðanir, lagfæringar, og einnig nýbyggingar smíðaðar af verktakanum, ásamt nauðsynlegum vörum og þjónustu tengdri skipasmíði, þar meðtalið, en ekki takmarkað við það þegar skip leggst að bryggju, það dregið og eða því lagt, þegar verktaki áskilur og verkkaupi samþykkir að þessir skilmálar gildi um viðskiptasambandið. Þá gilda skilmálar þessir um alla hönnun og smíði á fiskvinnslubúnaði, s.s. fiskvinnsluvélar, færibönd o.fl. Loks gilda skilmálar þessir um hvers konar lagnir sem og öll önnur verk sem verktaki tekur að sér.
3. Fyrir utan eiganda skipsins (“eigandinn”), staðgengil eigandans eða skipstjórann, getur viðskiptamaður verið hvaða fyrirtæki eða einstaklingur sem tilnefndur er af einhverjum af framangreindum aðilum. Ef ekki er skriflega samið um annað skal tengiliði eða umsjónarmanni verkkaupa talið heimilt vegna stöðu sinnar að fyrirskipa breytingar á verki, og panta aukaverk eða þjónustu.
2.
Umfang og framkvæmd verks
1. Enga vinnu skal inna af hendi nema hún sé sérstaklega tilgreind með skriflegum hætti. Engin pöntun skal talin bindandi fyrir verktakann nema hún sé staðfest skriflega og fyrirvaralaust af hálfu verktaka vegna verksins sem um ræðir. Þetta á einnig við um breytingar á verki og viðbótarþjónustu nema um annað sé samið sérstaklega.
2. Þegar verktaki og viðskiptamaður hafa sammælst um verkið, miðast við þau lög og reglur sem eru í gildi á þeim tíma eða eru sett af stjórnvöldum eða öðrum eftirlitsaðilum. Þá skal umsaminn afhendingartími og verð aðeins fullnægja þeim reglum og skilyrðum sem gilda þegar pöntun viðskiptamanns er samþykkt. Ef kröfum slíkra laga eða reglna er breytt, þá gilda greinar 3(4) og 6(2).
3. Það er á ábyrgð viðskiptamanns að tilkynna yfirvöldum og viðeigandi stjórnvaldi um viðgerð eða breytingar á skipi ef það á við, svo sem til að tryggja að verk sé unnið í samræmi við lög og reglugerðir stjórnvalda. Viðskiptamaðurinn skal greiða allan kostnað í tengslum við slík eftirlit eða komur eftirlitsaðila og stjórnvalda.
4. Verkið skal unnið í samræmi við venjulega starfshætti verktakans. Þrátt fyrir það skal verktakinn verða við öllum eðlilegum beiðnum frá viðskiptamanninum í tengslum við efni og framkvæmd verksins svo lengi sem slík beiðni rúmast innan umfangs verksins samkvæmt verksamningi og verklýsingu að mati verktaka. Teikningum, útskýringum og myndum er aðeins ætlað að sinna útskýringarhlutverki og skulu ekki vera bindandi í smáatriðum í tengslum við framkvæmd. Enn fremur skulu upplýsingar sem tengjast máli, þyngd og magni álitnar sem viðmiðanir.
5. Verktakinn skal framkvæma verkið á eðlilegan og vandvirkan hátt og nota til þess umsamið efni og efnivið.
6. Verktaka er frjálst og heimilt að ráða undirverktaka til þess að vinna verkið að hluta eða öllu leyti án samþykkis viðskiptamanns.
7. Ef það efni sem tilgreint er í samningi verður ekki útvegað í tæka tíð þá hafa báðir samningsaðilar rétt til að krefjast þess að gerður sé nýr samningur eða viðauki við verksamning þar sem sérstaklega eru teknar fram þær nauðsynlegu breytingar sem gera þarf varðandi verkið og umsamið efni sem nota á við viðgerðina og/eða breytingarnar.
8. Verktakinn ber einn ábyrgð á útfærslu á varúðar- og öryggisráðstöfunum, sem og framkvæmd laga og reglugerða sem gilda um starfsemi verktaka. Ef verktakinn vinnur að verki utan starfsstöðva sinna á Akureyri á Grindavík þá færist ábyrgðin á framangreindum atriðum yfir til viðskiptamannsins.
9. Starfsmenn verktakans og aðilar á hans vegum skulu virða opinberar og svæðisbundnar varúðar- og öryggisráðstafanir, lög og reglugerðir, sem og verklagsreglur og leiðbeiningar verktaka. Viðskiptamaðurinn skal beina þeim tilmælum til starfsmanna sinna og aðila á hans vegum að fylgja slíkum reglum og leiðbeiningum, og ber hann ábyrgð á því gagnvart verktakanum að svo sé gert.
10. Fyrir utan áhöfn skips er viðskiptamanni óheimilt að ráða til starfa starfsmenn vegna verksins, aðra en starfsmenn verktaka, nema verktaki hafi veitt sérstakt leyfi fyrir slíku. Hvað sem því líður, skal verktakanum í öllum tilvikum gerð skriflega grein fyrir eðli, umfangi, og tímamörkum þess verks og þeirrar vinnu sem viðskiptamaðurinn óskar eftir að áhöfn skips leysi sjálf af hendi.
11. Viðskiptamaðurinn skal tryggja að þær birgðir sem hann pantar til afhendingar innan starfsstöðva verktaka séu í samræmi við íslensk lög og reglugerðir sem í gildi eru á hverjum tíma, og enn fremur gæta að því ef sérstakar kröfur og reglur eiga við um starfsstöðina. Viðskiptamanninum ber skylda að tilkynna um allar sendingar inn á vinnusvæði verktaka.
12. Taka eldsneytis og dæling olíu eða vatns sem inniheldur olíu er háð leyfi verktakans og skal vera framkvæmd eftir leiðbeiningum hans. Dæling skal vera skilgreind sem dæling til og frá skipinu, sem og dæling á milli tanka skips og hverrar annarrar dælingaraðgerðar um borð í skipinu.
13. Öll taka eldsneytis og dæling skal vera framkvæmd á ábyrgð viðskiptamannsins Ef annað leiðir ekki af lögum eða alþjóðasáttmálum skal viðskiptamaðurinn halda verktakanum skaðlausum vegna allra skemmda og kostnaðar í tengslum við olíu- eða efnaleka frá skipinu, í þeim tilvikum þar sem háttsemi hefur verið í andstöðu við leiðbeiningar verktakans og þar sem viðskiptamaðurinn eða starfsmenn hans hafa sýnt af sér gáleysi að öðru leyti.
14. Hreinsun tanka skipsins með efnum, sýruefnum, eða á hvern annan hátt innan starfsstöðvarinnar er háð samþykki verktakans.
15. Vinna sem felur í sér málun, svo sem (ekki tæmandi talning) sandblástur eða sérhver önnur yfirborðsmeðhöndlun eða meðhöndlun þar sem notast er við öll önnur efni sem falla undir umhverfislög og reglugerðir má aðeins vera framkvæmd af verktakanum og undirverktökum hans innan starfsstöðvarinnar, nema um annað sé samið sérstaklega.
3.
Afhendingartími
1. Ef ekki er samið um annað skal verk unnið á hefðbundnum vinnutíma, án yfirvinnu og eins fljótt og auðið er, að teknu tilliti til annarra skuldbindinga sem verktakinn hefur nú þegar tekið sér á hendur á grundvelli þess sem um var samið. (Sjá einnig ákvæði 4. gr. skilmálanna)
2. Ef samið hefur verið um ákveðinn tímafrest til afhendingar, skal sá tími ekki byrja að líða fyrr en daginn sem báðir aðilar hafa sammælst um umfang og framkvæmd verksins og þar til áskilin fyrirframgreiðsla eða trygging, eftir atvikum, hefur verið greidd.
3. Ef við á skal viðskiptamaðurinn tryggja að skip sé til staðar fyrir verktakann á þeim tíma og stað og í því ástandi sem samið var um á milli aðila samningsins, þannig að verkið geti hafist samstundis og unnist samfleytt þar til verkinu er lokið. Afhendingartími byrjar ekki að líða fyrr en að viðskiptamaðurinn hefur staðið við allar ofangreindar skyldur. Verði seinkanir á ofangreindum skyldum sem rekja má til viðskiptamannsins hefur verktakinn rétt á að seinka vinnunni þar til skilyrðin eru uppfyllt. Í því tilviki er umsaminn tímafrestur til afhendingar lengdur um jafn marga daga og töfin varði.
4. Ef aðilar semja um breytingar eða viðbótarverk á meðan framkvæmd verks stendur, skal áætluðum afhendingardegi breytt og samið um seinni dagsetningu, eins og málum er háttað hverju sinni, að teknu tilliti til þess tíma sem þarf til undirbúnings og framkvæmdar verksins.
5. Samningurinn er gerður með fyrirvara um óviðráðanleg ytri atvik sem ekki er hægt að sjá fyrir og ekki er unnt að koma í veg fyrir eða hafa stjórn á með eðlilegum ráðum af hálfu verktakans (Force Majeure). Með Force Majeure í þessum skilningi er átt við til dæmis, ófyrirsjáanlega atburði innan eða utan Íslands, svo sem stríð eða stríðsástand, herkvaðningu, uppreisn, faraldur, eldsvoða, verkfall, verkbann, skyldubundna styttingu vinnutíma, innflutnings- eða útflutningsbönn, viðskiptabönn, aðgerðir stjórnvalda á sviði gjaldeyris- og viðskiptamála, seinkun á afhendingu hluta, efnis og efniviðar, aukahluta, vöru eða þjónustu undirverktaka, flutningshindranir, orkukreppu, fjarlægingu á óuppgefnu efni eða öðru slíku efni til að geta mætt kröfum stjórnvalda, skemmdir á skipi og pörtum þess eða efni vegna slyss sem átti sér stað fyrir afhendingu, skort verktaka eða undirverktaka á starfsmönnum, náttúruhamfarir, hindranir vegna íss, óveðurs eða hverja aðra atburði eða afleiðingar atburða sem eru ekki undir stjórn verktakans. Undir óviðráðanleg ytri atvik (Force Majeure) teljast enn fremur seinkanir eða tafir á afhendingu sem rekja má til gallaðrar afsteypu, brotajárnsvinnslu, framleiðsluóhapps, óreglu í starfsemi, truflunum, eldsvoða eða annarra orsaka sem verktaki getur ekki ráðið bót á með raunhæfum hætti.
6. Í tilviki óviðráðanlegra ytri atvika (Force Majeure), skal verktakanum heimilt að framlengja afhendingartíma sem nemur þeim dögum sem töpuðust vegna óviðráðanlegra ytri atvika.
7. Framlengingarréttur á umsömdum afhendingartíma er til staðar jafnvel þótt atvikið sem veldur seinkun á afhendingu eigi sér ekki stað fyrr en komið er fram yfir umsaminn afhendingartíma. Slík framlenging kemur hins vegar ekki í veg fyrir ábyrgð á þeirri afhendingarseinkun sem kann að hafa orðið áður en atvikið á sér stað.
8. Ef sammælst hefur verið um ákveðinn afhendingardag, skulu skilmálarnir að ofan gilda, að breyttu breytanda (l. mutatis mutandis).
9. Þar sem aðstæður koma upp, sem að mati verktakans munu leiða til seinkunar á afhendingu, skal verktakinn tilkynna viðskiptamanninn um slíkt án tafar, taka fram ástæður seinkunarinnar, og ef mögulegt skal verktakinn einnig tiltaka líklega tímalengd tafarinnar. Málsliðir þessa ákvæðis skulu einnig gilda þegar ekki hefur verið samið um sérstakan afhendingardag.
10. Ef einstaklingur eða einstaklingar í þjónustu viðskiptamannsins aðstoða við framkvæmd verksins er verktakinn ekki ábyrgur fyrir neinum töfum sem slíkur einstaklingur eða einstaklingar valda með beinum eða óbeinum hætti.
11. Ef samningur tiltekur ákveðinn afhendingartíma eða tiltekinn afhendingardag og ekki hefur verið sérstaklega samið um afleiðingar tafar, þá er ábyrgð verktakans vegna slíkra afleiðinga eða tjóns sem viðskiptamaðurinn verður fyrir takmörkuð við greiðslu hóflegrar sektar sem ákveðin er með hliðsjón af tímalengd tafarinnar og fjárhæðar endurgjalds fyrir verkið, og getur aldrei orðið hærri en 5% af umsömdu endurgjaldi fyrir verkið án tillits til virðisaukaskatts.
4.
Upptaka skipa
1. Samkomulag um að setja skip í kví er háð þeim fyrirvara að ekki verði nauðsynlegt að nota kvína vegna annars algerlega nauðsynlegs verks á umræddum tíma. Verktakanum er heimilt að veita skemmdum skipum í neyð forgang að aðstöðu sinni. Þessi grein skal einnig gilda um skip sem eru dregin upp í aðstöðu starfsstöðvarinnar.
2. Viðskiptamanni ber skylda til að hafa áhöfn um borð í skipi á meðan á upptöku skips stendur og tryggja að sá búnaður sem notaður er til verksins uppfylli þær kröfur sem til hans er gerður. Sé þetta ekki gert áskilur verktaki sér rétt til að innheimta greiðslu fyrir að manna skipið með eigin mönnum og útvega nauðsynlegan búnað til að tryggja öryggi skipsins og upptökumannvirkis. Ef til slíkra ráðstafanna er gripið er það gert í fullu samráði við viskiptamanninn og á ábyrgð hans, að öðrum kosti getur verktaki neitað því að taka skipið upp í upptökumannvirkið fyrr en áðurnefnd skilyrði eru uppfyllt.
5.
Gamalt efni og efniviður
1. Ef ekki er samið um annað, skal allt nýtilegt efni sem skipt er um meðan á viðgerð stendur – að undanþegnum þungum vélarhlutum, skipsskrúfum, drifsköftum, o.fl. sem og ónotað umframefni, verða eign verktakans, honum að kostnaðarlausu.
2. Efni og búnað sem er eign viðskiptamannsins skal fjarlægja af starfsstöð verktakans á sama tíma og verk er afhent viðskiptamanninum. Fjarlægingin skal gerð að frumkvæði viðskiptamannsins og á hans kostnað. Ef slíkir hlutir eru ekki fjarlægðir innan 30 daga frá afhendingu skips hefur viðskiptamaðurinn afsalað sér rétti hans til hlutanna, sem verða þá eign verktakans honum að kostnaðarlausu, nema um annað sé samið.
6.
Endurgjald
1. Ef aðilar hafa ekki sammælst um ákveðið verð fyrir verkið, skal reikningsgerð gerð á grundvelli venjulegs viðskiptasambands í samræmi við vinnu og kostnað verktakans.
2. Ef ekki er samið um annað og sammælst hefur verið um endurgjald fyrir ákveðið verk, skal skuldfært fyrir viðbótarvinnu og aukaverk sem er umfram það verk sem samið var um, eftir þeim venjum sem verktakinn starfar eftir vegna venjulegs viðskiptasambands. Ef umfang tilgreinds verks verður minna vegna breytinga, skal viðskiptamanninum endurgreidd hlutfallsleg upphæð af umsömdu endurgjaldi.
3. Aukinn kostnað vegna efnis og efniviðar, og/eða vinnu undirverktaka, skal skuldfæra eins og aðra viðbótavinnu í samræmi við venjur og reglur verktakans, nema slíkt sé innifalið í umsömdu endurgjaldi.
4. Viðskiptamaðurinn skal halda verktakanum skaðlausum vegna alls aukakostnaðar sem kann að myndast vegna seinkana sem rekja má til viðskiptamannsins, starfsmanna hans eða birgja.
5. Endurgjald vegna verks ber skatta og gjöld í samræmi við íslensk lög, svo sem virðisaukaskatt vegna seldrar vörur og þjónustu af hálfu verktaka.
7.
Greiðsla
Ef ekki er skriflega samið um annað, skulu eftirfarandi ákvæði gilda:
Skip:
1. Á meðan á framkvæmd verksins stendur er verktakanum heimilt að krefjast innborgunargreiðslu að fjárhæð u.þ.b. 75% af endurgjaldi þess verks sem unnið hefur verið á þeim tíma, samkvæmt einhliða mati verktaka. Það sem er útistandandi af endurgjaldinu kemur síðan til greiðslu þegar skipið er afhent viðskiptamanninum.
2. Verktakinn á rétt á að neita að afhenda skipið þar til fullnaðargreiðsla hefur verið innt af hendi af hálfu viðskiptamanns. Í tilviki deilu um greiðsluupphæð, skal viðskiptamaðurinn eiga rétt á því að krefjast fullnægjandi bankaábyrgðar eða annarrar tryggingar fyrir þeirri upphæð sem deilt er um gegn greiðslu til verktakans vegna upphæðarinnar sem krafist hefur verið. Í því tilviki, getur verktaki ekki neitað afhendingu skipsins. Ef verktaki neitar að láta í té bankaábyrgð fyrir þeim hluta reikningsins sem deilt er um, er viðskipavininum heimilt að krefjast afhendingar skipsins gegn greiðslu þeirrar upphæðar sem samningsaðilar eru sammála um og fullnægjandi bankaábyrgðar eða annarrar tryggingar fyrir greiðslu þess hluta reikningsins sem deilt er um. Bankaábyrgðin sem er látin í té af viðskiptamanninum skal vera afhent verktakanum til samþykkis. Þegar bankaábyrgðin hefur verið látin í té, skal viðskiptamaðurinn leita úrskurðar gerðardóms eftir 16. gr. skilmálanna innan 3 mánaða frá útgáfu ábyrgðarinnar. Ef viðskiptamaðurinn gerir það ekki, skal upphæð bankaábyrgðarinnar látin verktakanum í té. Ef verktakinn hefur útvegað trygginguna getur hann krafist þess að viðskiptamaðurinn beri ábyrgð á tilfallandi kostnaði. Ef viðskiptamaðurinn leggur málið í dóm skal dómurinn ákveða hvernig kostnaði skal skipt milli aðilanna.
Önnur verk:
3. Viðskiptamaður skal greiða 40% samningsfjárhæðar fyrir upphaf verks, eigi síðar en 3 dögum frá pöntun. 55% samningsfjárhæðar skal greiða fyrir afhendingu verksins og 5% eigi síðar en 30 dögum eftir afhendingu.
4. Allar tafir á greiðslum viðskiptamanns skulu fresta afhendingartíma um samsvarandi dagafjölda. Verktaki mun ekki afhenda verk fyrr en 95% samningsfjárhæðar hefur verið greidd, sbr. gr. 7.3. hér að framan.
5. Sé uppsetning verks innifalin munu starfsmenn verktaka sjá um uppsetningu. Það er á ábyrgð viðskiptamanns að tryggja að öll aðstaða sé fyrir hendi svo uppsetning geti gengið snurðulaust fyrir sig.
Sameiginleg ákvæði um skip og önnur verk:
6. Deilur í tengslum við kröfur viðskiptavinarins sem eru ekki samþykktar af verktakanum skulu vera útkljáðar í samræmi við grein 7.2 eftir því sem við á.
7. Gjalddagi endurgjalds fyrir verk sem unnið er í samræmi við tilboð sem samþykkt er af viðskiptamanni skal vera dagsetning afhendingar skipsins til viðskiptamanns. Vegna útgáfu reikninga fyrir vinnu á grundvelli venjulegs viðskiptasambands (á reikning), sem er ekki vegna umsamins fasts endurgjalds, þá skal gjalddagi vera 20 dögum frá dagsetningu reiknings.
8. Ef greiðsla er ekki innt afhendi á greiðsludegi, eru vextir innheimtir frá þeim degi og þar til greiðsla berst að upphæð sem er jöfn dráttarvöxtum á þeim tíma samkvæmt íslenskum lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
9. Ef viðskiptamaðurinn gerir ekki upp skuldir sínar og reikninga sína við verktakann innan 14 almanaksdaga frá því að krafa um slíkt er sett fram af verktakanum, þá er verktakanum heimilt að rifta samningnum og krefjast bóta í samræmi við almennar reglur íslenskra laga, að því gefnu að slíkar skuldir voru til staðar á þeim degi sem greiðslukrafa var gerð.
10. Viðskiptamanni er vera óheimilt að greiða með skuldajöfnuði.
8.
Afhending, áhættuskipti og afpöntun
Skip:
1. Skip skal afhent og sótt af viðskiptamanninum án kostnaðar fyrir verktakann á hafnarbakka verktakans, í höfn skipasmíðarstöðvar verktakans, eða á hafnarbakka sem notaður er af verktakanum.
2. Nema í þeim tilvikum sem heyra undir grein 9.2, þá skal verktakinn bera ábyrgð á viðgerðunum og efninu sem keypt var í tengslum við viðgerðirnar, þar til skip er afhent viðskiptamanni. Ef sjálfstæðum viðgerðarverkum sem samið var um í sitt hvoru lagi er ekki lokið samtímis er verktakanum heimilt að afhenda þau öll á sama tíma.
Önnur verk:
3. Önnur verk eru afhent EXW. Um afhendingu þeirra gilda alþjóðareglur um skýringu alþjóðlegra viðskiptasamninga (IncoTerms).
4. Verkið er eign verktaka þar til það er að fullu greitt.
Sameiginleg ákvæði um skip og önnur verk:
5. Áhætta skal færast til viðskiptamanns þegar verktaki hefur tilkynnt að skipið eða verkið sé tilbúið til afhendingar.
6. Afpanti viðskiptamaður verkið eftir að það er hafið, án sakar verktaka, skulu allar greiðslur viðskiptamanns til verktaka þegar í stað verða eign verktaka. Þá skal viðskiptamaður halda verktaka skaðlausum af öllu tjóni, hverju nafni sem því nefnist, sem verktaki verður fyrir vegna afpöntunarinnar.
9.
Prófanir
1. Verktakanum er heimilt að framkvæma þær prófanir sem hann telur nauðsynlegar til að ákvarða hvort pöntuninni hafi verið fullnægt samkvæmt verksamningi. Verktakanum er heimilt að nota eldsneyti skips, o.fl., sér að kostnaðarlausu vegna slíkra prófana. Verktakinn skal veita viðskiptamanninum sanngjarnan fyrirvara um eðli og tímasetningu slíkrar prófana, og, ef verktakinn fer fram á það, skal viðskiptamaðurinn eða fulltrúi hans vera viðstaddur þegar slíkar prófanir fara fram.
2. Á meðan á prufusiglingu stendur, ber viðskiptamaðurinn einn alla áhættu og ábyrgð á skipi, vélbúnaði þess, búnaði og öllum þeim skemmdum sem skipið kann að valda. Einnig ber viðskiptamaður áhættuna af viðgerðum, að undanskildum skemmdum sem valdið er vegna mistaka eða vanrækslu verktakans.
3. Á meðan á prufusiglingu stendur, skal viðskiptamaðurinn manna skip í samræmi við reglur og reglugerðir, verktakanum að kostnaðarlausu. Hvað sem því líður, skal verktakanum heimilt að láta sitt eigið starfslið stýra vélbúnaði skipsins.
4. Fulltrúum verktakans skal heimilað að framkvæma hverja þá skoðun, mælingu eða athugun um borð í skipinu fyrir og eftir að prófanir sem verktakanum finnst nauðsynlegar fyrir fullnægjandi framkvæmd og stjórn prófana. Þar að auki, skulu slíkir fulltrúar hafa aðgang að öllum upplýsingum um fyrri prófanir.
5. Þegar verktakinn telur að pöntunin og verkið hafi verið afgreitt í samræmi við efni samningsins, skal viðskiptamaðurinn látinn vita um slíkt, og verktakinn má fara fram á það að tími verði ákveðinn þar sem skoðun beggja aðila samningsins fer fram á viðgerðunum. Verktakinn skal tilkynna viðskiptamanninum um slíkt með sanngjörnum fyrirvara og viðskiptamanninum er skylt að mæta á þann fund.
6. Á afhendingarfundinum skulu athugasemdir vegna galla á verkinu vera ritaðar í fundargerðarbók og skal slík fundagerðarbók undirrituð af báðum aðilum samningsins. Afhending skal ekki fara fram fyrr en ráðin hefur verið bót á þeim göllum sem fram kunna að koma í fundargerðarbókinni.
7. Þegar þeir gallar sem vísað var í í greininni hér að framan hafa verið lagaðir á fullnægjandi hátt, er viðskiptamanninum skylt að taka við verkinu og samþykkja afhendingu verksins. Að beiðni verktakans, skal viðskiptamaðurinn undirrita bókun um lokaafhendingu og samþykki í tengslum við það. Ákvæðið í 5. gr. hér að ofan skal gilda með nauðsynlegum breytingum um fund þennan, sé hann haldinn að beiðni verktakans.
10.
Teikningar o.fl.
1. Teikningar, sýnishorn, gögn um þyngdir og magn, upplýsingar um endurgjald o.fl. sem er undirbúið eða sett fram af verktakanum skal vera eign verktakans. Viðskiptamanninum er ekki heimilt að nota slíkt efni til að skaða hagsmuni verktakans. Þetta á líka við um teikningar, o.fl. sem fylgir samningi. Verktakinn má ekki gera teikningar, sýnishorn o.fl. sem tilheyra viðskiptamanninum aðgengileg þriðja manni án samþykkis viðskiptamannsins.
11.
Úrbætur
1. Samkvæmt þeim ákvæðum sem sett eru fram hér að neðan, skal verktakinn bæta úr hverjum þeim göllum á viðgerðum sem upp koma vegna sannanlegra galla á efnivið, vinnuháttum eða hönnun.
2. Skylda til úrbóta og önnur ábyrgð verktaka nær aðeins til sannanlegra galla sem sýnt er fram á og tilkynntir eru innan 6 mánaða frá afhendingu. Ábyrgð verktaka nær aðeins til verks verktaka og þátta sem unnir voru af verktakanum eða undirverktökum hans (þar á meðal, en ekki takmarkað við hönnun sem unnin var af verktakanum, hönnun sem hann aflaði eða útvegaði, eða hönnun sem útveguð var af einstaklingi eða fyrirtæki öðrum en viðskiptamanni eða ráðgjöfum hans).
7. Í þeim tilvikum sem verktakinn skiptir út, eða gerir við hluta af pöntuninni, hefst nýtt ábyrgðartímabil fyrir þann hluta, háð grein 11.2 hér að ofan. Þessi grein á ekki við um aðra hluta pöntunarinnar og ábyrgðartímabilið er bara lengt um það tímabil sem skipið gat ekki verið notað vegna þeirra galla sem vísað er í grein 11.1 að ofan. Þrátt fyrir framangreint skal skyldan til úrbóta ekki eiga við um nokkurn hluta viðgerðarinnar eða viðgerðina í heild sinni í lengur en í 12 mánuði frá byrjun upphaflega ábyrgðartímabilsins.
8. Sama úrbótaskylda á við um einstaka hluta í eða efnivið fyrir viðgerðina sem ekki er framleiddur af verktakanum fyrir eigin starfssemi verktakans. Í þeim tilfellum þar sem víðtækari úrbótaskylda er lögð á undirverktaka, er verktakanum heimilt að framselja réttindi sín gagnvart undirverktaka til viðskiptamannsins.
9. Í þeim tilvikum sem verktakinn fær kvörtun innan tímamarka frá viðskiptamanninum, sbr. 14. gr. skilmálanna, um galla sem á undir úrbótaskyldu, þá skal verktakinn – viðskiptamanninum að kostnaðarlausu og án tafar – gera ráðstafanir til að gera við eða endurnýja það sem er gallað eða framkvæma þá vinnu sem þarf til að bæta úr gallanum. Í þeim tilgangi þarf viðskiptamaðurinn að sjá til þess að skipið, eða sá hluti skipsins sem gera þarf við, sé tiltækt fyrir verktakann í þann tíma sem þarf til úrbóta.
10. Þegar verktakinn endurnýjar gallaða parta eða hluti verða gamlir partar og hlutir eign verktakans honum að kostnaðarlausu.
11. Skyldan til úrbóta nær ekki yfir eðlileg slit, slys eða skemmdir, eða því um líkt, sem er afleiðing rangrar meðferðar. Úrbótaskyldan á ekki við ef viðskiptamaðurinn fer ekki eftir leiðbeiningum verktakans eða undirverktaka í tengslum við vinnslu, viðhald o.fl.
12. Sömu ákvæði gilda um viðgerðir vegna skyldu til úrbóta eins og um upprunalegar viðgerðir og breytingar samkvæmt pöntun og verksamningi, að frátöldu því sem leiðir af grein 11.3
12.
Umfang ábyrgðar
1. Til viðbótar 11. gr. hér að ofan, skal verktakinn ekki vera ábyrgur fyrir neinu því tjóni sem viðskiptamaðurinn verður fyrir, þar á meðal en þó ekki aðeins tjóni á skipinu og/eða búnaði þess og/eða farmi þess eða hlutum um borð í skipinu, hvort sem þeir tilheyra viðskiptamanninum eða þriðja manni, nema sannað sé að tjónið megi rekja til saknæmrar háttsemi verktakans.
2. Verktakinn skal ekki undir neinum kringumstæðum bera ábyrgð á greiðslu bóta vegna við missis hagnaðar, tíma, viðskipta eða annars afleidds eða óbeins tjóns.
3. Möguleg ábyrgð verktaka skal takmarkast við upphæð þá sem kveðið er á um í frjálsri ábyrgðartryggingu verktata vegna hvers tjónsatviks. Röð óhappa sem hlýst af sömu mistökum eða gáleysislegri háttsemi skal í þessum skilningi teljast sem eitt tjónstilvik.
4. Að því leyti sem verktakinn gæti borið ábyrgð vegna notkunar viðskiptamannsins á viðgerðunum eða skipinu sem gert var við, þá skal viðskiptamaðurinn halda verktakanum skaðlausum vegna þeirrar ábyrgðar sem verktakinn kann að baka sér að því leyti sem slík ábyrgð fer umfram hámarksfjárhæð greinar 12.3. Viðskiptamaðurinn samþykkir að leyfa höfðun dómsmáls á hendur sér fyrir sama dómi og fer með bótakröfu gagnvart verktakanum vegna tiltekins viðgerðarverks.
13.
Tryggingar
1. Viðskiptamaðurinn skal tryggja verkið (viðfangsefni samningsins) með fullnægjandi hætti, með húftryggingu og ábyrgðartryggingu meðal annars vegna krafna þriðja manns, á meðan það er statt í starfsstöð og aðstöðu verktakans. Verktakinn skal ekki taka neinar tryggingar fyrir verkinu, áhöfninni, farminum eða búnaðnum um borð (ef um skip er að ræða) eða hvað annað sem er í eigu, eða til afnota fyrir viðskiptamanninn, nema ef viðskiptamaðurinn óskar þess formlega og með skriflegum hætti, og í slíkum tilvikum er slík trygging á kostnað viðskiptamannsins. Í sérstökum kringumstæðum áskilur verktakinn sér rétt til að kaupa, á reikning viðskiptamannsins og í samræmi við verksamning við viðskiptamanninn, viðbótartryggingu sem nær yfir ábyrgð verktakans, ef einhver, á skemmdum á farmi um borð í skipinu.
2. Verktakinn ber ekki ábyrgð á tjóni sem viðskiptamaðurinn tryggði sig fyrir eða bar að tryggja sig fyrir skv. gr. 13(1) hér að framan.
14.
Kvartanir og kröfur
1. Kvartanir og/eða kröfur varðandi efni eða vinnu sem er ekki í samræmi við efni verksamnings að mati viðskiptamannsins skal hann leggja fram fram um leið og slíkur galli eða önnur atriði eru uppgötvuð.
2. Geri viðskiptamaðurinn það ekki fyrir afhendingu skipsins hefur það þau áhrif að verktakinn er laus undan allri ábyrgð í tengslum við verk sem hann hefur unnið, þó með þeirri undantekningu að um leyndan galla sé að ræða í efni eða vinnu sem viðskiptamaðurinn gat ekki eða hefði ekki getað komið auga á fyrir afhendingu, og verður að tilkynna um slíkan leyndan galla innan sex mánaða frá afhendingardegi, sjá einnig 12. gr. skilmálanna.
3. Kvartanir og/eða kröfur er snúa að reikningum skulu lagðar fram ekki seinna en 15 dögum frá útgáfudegi reiknings.
4. Allar kvartanir og/eða kröfur skulu settar fram skriflega og með þeim fylgja ítarlegar upplýsingar og rökstuðningur eftir því sem við á.
15.
Önnur ákvæði
1. Verktaki hefur öll þau vanefndarúrræði sem almenn lög og reglur heimila hverju sinni vegna mögulegra vanefnda viðskiptamanns, og geta engin ákvæði í verksamningi eða skilmálum þessum takmarkað rétt verktaka að þessu leyti.
2. Skilmálar þessir gilda jafnt um viðgerðir og breytingar sem unnar eru af verktaka. Þar sem talað er um viðgerð eða viðgerðarverk í þessum skilmálum er einnig átt við um breytingarverk og vinnu við breytingar.
3. Verktaka og viðskiptamanni er óheimilt að framselja réttindi sín samkvæmt verksamningi og skilmálum nema með skriflegu samþykki hins aðilans.
4. Viðskiptamaður skal halda verktaka skaðlausum vegna kostnaðar af öllum sköttum og öðrum mögulegum gjöldum vegna skipsins, reksturs þess og annarra atriða sem ekki falla með beinum hætti undir starfsemi skipasmíðarstöðvar verktaka þannig að greiðsla slíkra gjalda sé á ábyrgð hans.
5. Breytingar á verksamningi ásamt skilmálum þessum milli verktaka og viðskiptamanns verða aðeins gerðar með skriflegum viðaukum sem undirritaðir eru af báðum aðilum.
6. Séu ákvæði þessara skilmála ósamþýðanleg ákvæðum verksamnings milli verktaka og viðskiptamanns þá skulu ákvæði verksamningsins ganga framar ákvæðum í þessum skilmálum.
16.
Lög og ágreiningsmál
1. Allar deilur og ágreiningsefni á milli aðila samningsins sem tengist verksamningi með ákvæðum þessum skal útkljáð í samræmi við íslensk lög og skal Akureyri vera vettvangur sátta og gerðardóms.
2. Samningur þessi og túlkun hans fer að öllu leyti eftir íslenskum lögum. Öll deilumál sem upp kunna að koma milli aðila út af samningi þessum skal reka fyrir gerðardómi á Akureyri, sem skal skipaður þremur mönnum. Skal einn gerðardómsmanna tilnefndur af verktaka, einn gerðardómsmaður af viðskiptamanni og einn skal tilnefndur af Héraðsdómi Norðurlands eystra, sem skal vera formaður gerðardómsins. Aðili skal tilnefna sinn gerðardómsmann innan 10 daga frá móttöku tilkynningar frá gagnaðila um ákvörðun hans að að vísa máli í gerðardóm og að hann hafi tilnefnt gerðardómsmann. Upphaf gerðardómsmeðferðar skal miðast við þann dag sem aðili tekur við tilkynningu frá gagnaðila um skipan gerðardómsmanns. Að öðru leyti skulu lög nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma gilda um gerðardóminn, en þau lög ásamt ákvæði þessu teljast gerðarsamningur milli undirritaðra samningsaðila. Niðurstaða gerðardómsins skal vera bindandi og verður henni ekki áfrýjað til dómstóla umfram það sem mælt er fyrir um í framangreindum lögum.
3. Ef annar aðila samnings tilnefnir ekki gerðarmann, skal óskað eftir því að dómstjóri Héraðsdóms Norðurlands Eystra tilnefni gerðarmann.
4. Verktakanum er þó heimilt að fara með kröfur fyrir almenna dómstóla í því landi sem viðskiptamaðurinn hefur staðfestu eða landi þar sem skipið kann að vera í því skyni að afla endanlegs dóms til að fullnusta kröfum verktaka.