Guðmundur í Nesi í slipp á Akureyri

24. september 2025

Öryggi og áreiðanleiki í fyrirrúmi hjá Útgerðarfélagi Reykjavíkur

Glæsilegi togarinn Guðmundur í Nesi við Slippinn Akureyri þar sem unnið er að reglubundnu viðhaldi.

Viðhald skipa er eðlilegur og mikilvægur hluti af rekstri í sjávarútvegi. Það tryggir að skipin haldist örugg og í góðu ástandi fyrir komandi vertíðir. Á Akureyri hefur Slippurinn í mörg ár sinnt fjölbreyttum verkefnum fyrir útgerðir víða af landinu og byggt upp góða aðstöðu og þekkingu til verksins.

Eitt nýjasta dæmið er togari Útgerðarfélags Reykjavíkur, Guðmundur í Nesi, sem nú er í slipp á Akureyri. Skipið er 66 metra langt og 14 metra breitt, smíðað í Noregi árið 2000. Það er eitt af lykilskipum Útgerðarfélags Reykjavíkur og gegnir mikilvægu hlutverki í veiðum á botnfiski, meðal annars grálúðu.

 

Viðhald og endurbætur

Á meðan á slippdvöl stendur er unnið að fjölbreyttum viðhaldsverkefnum sem styrkja rekstraröryggi skipsins fyrir komandi vertíðir. Meðal verkefna í þetta sinn eru lagfæringar á hliðarskrúfu og stýri, öxuldráttur og aðrar nauðsynlegar endurbætur.

„Það er alltaf ánægjulegt að vinna fyrir Bjarna og hans félaga á Guðmundi í Nesi,“ segir Jón Áki Friðþjófsson, verkefnastjóri hjá Slippnum Akureyri. „Ég vil sérstaklega hrósa því skipulagi sem einkennir starfsmenn Guðmundar í Nesi í allri sinni vinnu.“

 

Vélstjórinn og samstarfið

Bjarni Hjaltason, yfirvélstjóri á skipinu, hefur fylgt verkefninu eftir. Hann er ánægður með þjónustuna hjá Slippnum:

„Þetta er þriðji slippurinn sem ég kem að með Guðmund í Nesi og annar sem ég stýri fyrir hönd skipsins. Það er alltaf gott að koma hingað – geysilega góð umgjörð, allt á einum stað og á lokuðu svæði. Það er mikill mannauður sem þið búið yfir í Slippnum og öryggismál eru tekin föstum tökum. Það skiptir máli.“

Bjarni hefur starfað á sjó í meira en aldarfjórðung. Hann hóf feril sinn árið 1998 á Hrafni Sveinbjarnarsyni hjá Þorbirninum og starfaði þar til 2006. Síðan tók hann við yfirstöðu á Hrafni GK til ársins 2014, var yfirvélstjóri á Kleifaberginu til 2020 og hefur starfað á Guðmundi í Nesi síðustu ár sem yfirvélstjóri.

„Þetta eru fjögur skip á 27 árum – og engin leið til baka frá sjómennskunni,“ segir hann brosandi.

 

Tilbúinn til veiða

Upp úr næstu helgi, þegar slippnum lýkur, heldur Guðmundur í Nesi aftur til hafs.

„Það verður góð tilfinning að fara með skipið út eftir þessar viðgerðir,“ segir Bjarni að lokum.

Verkið við Guðmund í Nesi sýnir vel hvernig gott samstarf útgerða og þjónustuaðila stuðlar að því að íslensk skip haldist örugg, sjóhæf og tilbúin til veiða.

T.v. Bjarni Hjaltason, yfirvélstjóri á Guðmundi í Nesi, ásamt Jóni Áka Friðþjófssyni, verkefnastjóra hjá Slippnum Akureyri – Skipaþjónustu.
Viðhaldsvinna á Guðmundi í Nesi – unnin af fagfólki Slippsins Akureyri.
12. september 2025
Ármann Guðmundsson, þjónustustjóri hjá DNG Færavindum, kynnir nýju DNG R1 færavinduna  á bás fyrirtækisins í Laugardalshöll.
11. september 2025
Sjávarútvegssýningin Iceland Fishing Expo 2025 stendur nú yfir í Laugardalshöll eftir að hafa verið sett í gær, og lýkur henni á morgun, föstudag. Slippurinn DNG er meðal þátttakenda og kynnir þar fjögur fyrirtækjasvið sín: Skipaþjónustu, DNG vinnslubúnað, DNG færavindur og Fiskeldi & iðnað. „Aðsókn á básinn okkar hefur verið mjög mikil,“ segir Hilmar Guðmundsson, sölu- og markaðsstjóri Slippurinn DNG. „Þetta er frábær vettvangur til að ræða málin við bæði núverandi og framtíðar viðskiptavini.“ Hilmar bendir á að áskoranir og tækifæri í viðskiptaumhverfinu séu alltaf til staðar: „Þá er mikilvægt að leita leiða til að auka hagkvæmni í rekstrinum — og þar koma hinar ýmsu lausnir sem við hjá Slippurinn DNG vinnum að í nánu samstarfi við viðskiptavini okkar,“ segir hann. Sýningin hefur hlotið góðar viðtökur meðal fagaðila í sjávarútvegi og veitir fyrirtækjum gott tækifæri til að kynna nýjungar og styrkja tengsl innan greinarinnar.
4. september 2025
Slippurinn DNG verður á Sjávarútvegssýningunni í Laugardalshöll 10.–12. september. Við kynnum meðal annars DNG færavindur, Deep Trekker kafbáta og fjölbreytta þjónustu okkar. Sérfræðingar okkar verða á staðnum til að ræða við gesti um: Færavindur DNG Skipaþjónustu Brunvoll skrúfur og framdrifskerfi Fiskvinnslubúnað DNG Útbúnað og þjónustu fyrir fiskeldisiðnaðinn …og margt fleira. Velkomin á bás B26!
19. ágúst 2025
Elegant execution of the artwork Sókn in Grenivík. Designer: Sigríður Björg Haraldsdóttir, pictured here. Slippurinn Akureyri contributed to the final design and preparation. Photo courtesy of Grenivík.is.
19. ágúst 2025
Glæsileg útfærsla listaverksins Sókn á Grenivík. Hönnuður: Sigríður Björg Haraldsdóttir, sem sést á myndinni. Slippurinn Akureyri kom að lokahönnun, efnisvali og undirbúningi smíðinnar. Mynd fengin að láni hjá Grenivík.is.
15. ágúst 2025
Fjarstýrðir kafbátar fyrir fiskeldi Slippurinn Akureyri er með umboð fyrir Deep Trekker , kanadíska neðansjávar­dróna – eða fjarstýrða kafbáta, eins og við köllum þá. Við höfum kynnt búnaðinn á vörusýningum undanfarin ár og fengið frábærar viðtökur. Nokkrir aðilar hafa þegar fjárfest í þessum lausnum og hefur notagildið sannað sig með glæsilegum árangri. Valdemar Karl Kristinsson, verkefnastjóri hjá Slippnum Akureyri, segir að Deep Trekker stuðli að auknu öryggi og hagkvæmni í rekstri fiskeldisfyrirtækja: „Með Deep Trekker kafbátum færðu fullkomið yfirlit yfir ástand neta og festinga án þess að þurfa að senda kafara niður. Þú sérð strax hvað þarf að laga eða viðhalda, sem sparar bæði tíma og kostnað og eykur öryggi.“ Net Patch Kit – einfaldar viðgerðir undir vatni Eitt af þeim verkfærum sem eykur þetta öryggi og skilvirkni er Net Patch Kit. Það festist ofan og neðan á Deep Trekker kafbát og heldur netbótinni með örmum framan við bátinn. Mótorinn að neðan tengist við gripbúnaðinn, og með stýringu á neðri arminum er hægt að minnka spennu í netinu til að staðsetja möskvann rétt og síðan losa til að skilja bótina eftir á sínum stað. Slippurinn Akureyri sér um að útvega festingar og uppsetningarbúnað, en viðskiptavinurinn útvegar sjálfur netið svo hægt sé að samræma efnið við það sem þegar er notað í kví fyrirtækisins. Sjá nánar í myndbandi hér að neðan. Fiskeldi undir stjórn – nákvæm skoðun, hreinsun og vöktun Með kafbát frá Deep Trekker er hægt að framkvæma reglulegar og nákvæmar skoðanir á netum og tryggja að festingar séu öruggar og þar með tryggja burðarþol og öryggi mannvirkja. Þetta er sérstaklega mikilvægt við uppsetningu nýrra kvía og til að uppfylla kröfur eftirlitsaðila. Með kafbát geturðu tekið stjórn á netaskoðunum, aukið skilvirkni í hreinsun og fylgst með slit- eða skemmdarhættu sem gæti leitt til slysasleppinga. Reglulegar skoðanir á kvíum og netum, ásamt vöktun á fiskiheilbrigði og fóðrun, ættu að vera hluti af daglegum rekstri. Með lausnum Deep Trekker er hægt að fá rauntímamynd frá neðansjávarmyndavélum, fylgjast með fóðrun, meta ástand stofnsins og greina hegðun fisksins. Þetta sparar bæði tíma og fjármuni. Hér fyrir neðan eru ítarleg og áhugaverð myndbönd sem sýna notkun og virkni Deep Trekker við raunverulegar aðstæður. Frekari upplýsingar veitir: Valdemar Karl Kristinsson valdemar@slipp.is Slippurinn Akureyri verður með Deep Trekker til sýnis á Sjávarútvegssýningunni í Laugardalshöll, dagana 10.–12. september, á bás númer B-26.
Fleiri færslur