Nýr DNG vinnslubúnaður settur upp í Súðavík og Sandgerði

11. mars 2025

Slippurinn Akureyri lauk nýlega við uppsetningu DNG vinnslubúnaðar hjá Hraðfrystihúsinu-Gunnvöru í Súðavík og Samherja fiskeldi í Sandgerði. 
Í Súðavík var sett upp sérhönnuð lína fyrir lifrarvinnslu og í Sandgerði ný snyrtilína fyrir bleikjuvinnslu.

Ný tæki frá DNG Vinnslubúnaði komin í notkun í lifrarvinnslu Hraðfrystihússins-Gunnvarar í Súðavík.

Í desember og janúar var lokið við uppsetningu nýs búnaðar úr vörulínu DNG Vinnslubúnaðar hjá Slippnum Akureyri ehf. hjá tveimur viðskiptavinum, annars vegar í lifrarvinnslu Hraðfrystihússins-Gunnvarar í Súðavík og hins vegar í bleikjuvinnslu Samherja fiskeldis í Sandgerði.

Óli Björn Ólafsson, verkefnastjóri hjá starfsstöð Slipp­ins Akureyri í Hafnarfirði, segir verkefnin hafa gengið mjög vel og að þau endurspegli það víðfeðma svið í hönnun, framleiðslu og uppsetningu vinnslubúnaðar sem fyrirtækið þjónustar.


Sérhæfður búnaður fyrir lifrarvinnslu HG

Í Súðavík hefur niðursuða á þorsklifur verið starfrækt um 20 ára skeið en þar áður var rekin rækjuvinnsla í húsinu. Hraðfrystihúsið-Gunnvör starfrækir lifrarniðursuðuna en DNG Vinnslubúnaður annaðist hönnun, framleiðslu og smíði á sérstöku hitabaði, síutromlu, varmaskiptum og hitastýringum en hitastýring er einn af lykilþáttum í lifrarvinnslu sem þessari.

„Þetta verkefni er dæmi um sérhæfðan búnað í okkar fjölbreyttu vörulínu. Við tökumst á við margs konar verkefni í smíði búnaðar fyrir vinnslu sjávarfangs, hvort heldur er vinnsla botnfisks, eldisfisks, rækju eða sérhæfðari vinnsla á borð við hrogn og lifur,” segir Óli Björn en uppsetningu búnaðarins í Súðavík lauk nú í janúarmánuði.

„Við erum afar stolt af þessu verkefni í Súðavík og þökkum Hraðfrystihúsinu-Gunnvör fyrir það traust sem fyrirtækið sýndi okkur í því.”


Ný snyrtilína í bleikjuvinnslu Samherja fiskeldis

Önnur sérhæfð vinnsla er bleikjuvinnsla Samherja fiskeldis í Sandgerði en þar var lokið uppsetningu á nýrri snyrtilínu frá DNG Vinnslubúnaði í desembermánuði.

Þetta er fjórða snyrtilínan í húsinu en þær fyrri voru framleiddar af Martaki í Grindavík, forvera núverandi starfsstöðvar Slipp­ins Akureyri í Hafnarfirði.

Óli Björn segir að markmiðið með þessari línu sé að mæta aukinni framleiðslu í húsinu sem nemur 1000-1200 tonnum á ári en ársframleiðsla hefur verið um 3000 tonn síðustu ár.

Sem kunnugt er er bleikjuvinnslan Samherja fiskeldis í Sandgerði ein sú fullkomnasta í heimi en þar eru framleiddar bæði ferskar bleikjuafurðir og laustfrystar vakúmpakkaðar afurðir.

„Við erum mjög ánægð með útkomu nýju snyrtilínunnar í Sandgerði. Það er alltaf krefjandi að koma fyrir nýjum búnaði inni í vinnslu og mikilvægt að menn séu hugmyndaríkir að nýta rýmið vel. Bleikjuvinnslan í Sandgerði er hátæknivinnsla sem er með þessum búnaði frá okkur orðin enn betur búin,” segir Óli Björn.

Óli Björn Ólafsson, verkefnastjóri í starfsstöð
Slippsins Akureyri í Hafnarfirði.
12. september 2025
Ármann Guðmundsson, þjónustustjóri hjá DNG Færavindum, kynnir nýju DNG R1 færavinduna  á bás fyrirtækisins í Laugardalshöll.
11. september 2025
Sjávarútvegssýningin Iceland Fishing Expo 2025 stendur nú yfir í Laugardalshöll eftir að hafa verið sett í gær, og lýkur henni á morgun, föstudag. Slippurinn DNG er meðal þátttakenda og kynnir þar fjögur fyrirtækjasvið sín: Skipaþjónustu, DNG vinnslubúnað, DNG færavindur og Fiskeldi & iðnað. „Aðsókn á básinn okkar hefur verið mjög mikil,“ segir Hilmar Guðmundsson, sölu- og markaðsstjóri Slippurinn DNG. „Þetta er frábær vettvangur til að ræða málin við bæði núverandi og framtíðar viðskiptavini.“ Hilmar bendir á að áskoranir og tækifæri í viðskiptaumhverfinu séu alltaf til staðar: „Þá er mikilvægt að leita leiða til að auka hagkvæmni í rekstrinum — og þar koma hinar ýmsu lausnir sem við hjá Slippurinn DNG vinnum að í nánu samstarfi við viðskiptavini okkar,“ segir hann. Sýningin hefur hlotið góðar viðtökur meðal fagaðila í sjávarútvegi og veitir fyrirtækjum gott tækifæri til að kynna nýjungar og styrkja tengsl innan greinarinnar.
4. september 2025
Slippurinn DNG verður á Sjávarútvegssýningunni í Laugardalshöll 10.–12. september. Við kynnum meðal annars DNG færavindur, Deep Trekker kafbáta og fjölbreytta þjónustu okkar. Sérfræðingar okkar verða á staðnum til að ræða við gesti um: Færavindur DNG Skipaþjónustu Brunvoll skrúfur og framdrifskerfi Fiskvinnslubúnað DNG Útbúnað og þjónustu fyrir fiskeldisiðnaðinn …og margt fleira. Velkomin á bás B26!
19. ágúst 2025
Elegant execution of the artwork Sókn in Grenivík. Designer: Sigríður Björg Haraldsdóttir, pictured here. Slippurinn Akureyri contributed to the final design and preparation. Photo courtesy of Grenivík.is.
19. ágúst 2025
Glæsileg útfærsla listaverksins Sókn á Grenivík. Hönnuður: Sigríður Björg Haraldsdóttir, sem sést á myndinni. Slippurinn Akureyri kom að lokahönnun, efnisvali og undirbúningi smíðinnar. Mynd fengin að láni hjá Grenivík.is.
15. ágúst 2025
Fjarstýrðir kafbátar fyrir fiskeldi Slippurinn Akureyri er með umboð fyrir Deep Trekker , kanadíska neðansjávar­dróna – eða fjarstýrða kafbáta, eins og við köllum þá. Við höfum kynnt búnaðinn á vörusýningum undanfarin ár og fengið frábærar viðtökur. Nokkrir aðilar hafa þegar fjárfest í þessum lausnum og hefur notagildið sannað sig með glæsilegum árangri. Valdemar Karl Kristinsson, verkefnastjóri hjá Slippnum Akureyri, segir að Deep Trekker stuðli að auknu öryggi og hagkvæmni í rekstri fiskeldisfyrirtækja: „Með Deep Trekker kafbátum færðu fullkomið yfirlit yfir ástand neta og festinga án þess að þurfa að senda kafara niður. Þú sérð strax hvað þarf að laga eða viðhalda, sem sparar bæði tíma og kostnað og eykur öryggi.“ Net Patch Kit – einfaldar viðgerðir undir vatni Eitt af þeim verkfærum sem eykur þetta öryggi og skilvirkni er Net Patch Kit. Það festist ofan og neðan á Deep Trekker kafbát og heldur netbótinni með örmum framan við bátinn. Mótorinn að neðan tengist við gripbúnaðinn, og með stýringu á neðri arminum er hægt að minnka spennu í netinu til að staðsetja möskvann rétt og síðan losa til að skilja bótina eftir á sínum stað. Slippurinn Akureyri sér um að útvega festingar og uppsetningarbúnað, en viðskiptavinurinn útvegar sjálfur netið svo hægt sé að samræma efnið við það sem þegar er notað í kví fyrirtækisins. Sjá nánar í myndbandi hér að neðan. Fiskeldi undir stjórn – nákvæm skoðun, hreinsun og vöktun Með kafbát frá Deep Trekker er hægt að framkvæma reglulegar og nákvæmar skoðanir á netum og tryggja að festingar séu öruggar og þar með tryggja burðarþol og öryggi mannvirkja. Þetta er sérstaklega mikilvægt við uppsetningu nýrra kvía og til að uppfylla kröfur eftirlitsaðila. Með kafbát geturðu tekið stjórn á netaskoðunum, aukið skilvirkni í hreinsun og fylgst með slit- eða skemmdarhættu sem gæti leitt til slysasleppinga. Reglulegar skoðanir á kvíum og netum, ásamt vöktun á fiskiheilbrigði og fóðrun, ættu að vera hluti af daglegum rekstri. Með lausnum Deep Trekker er hægt að fá rauntímamynd frá neðansjávarmyndavélum, fylgjast með fóðrun, meta ástand stofnsins og greina hegðun fisksins. Þetta sparar bæði tíma og fjármuni. Hér fyrir neðan eru ítarleg og áhugaverð myndbönd sem sýna notkun og virkni Deep Trekker við raunverulegar aðstæður. Frekari upplýsingar veitir: Valdemar Karl Kristinsson valdemar@slipp.is Slippurinn Akureyri verður með Deep Trekker til sýnis á Sjávarútvegssýningunni í Laugardalshöll, dagana 10.–12. september, á bás númer B-26.
Fleiri færslur