Vélaskemman í Hlíðarfjalli risin
21. desember 2024
Ný vélaskemma í Hlíðarfjalli: Bylting fyrir starfsemi og aðstöðu!

Súlur stálgrindarhús ehf., dótturfélag Slippsins Akureyri ehf., hefur lokað nýrri vélaskemmu sem fyrirtækið reisir fyrir Akureyrarbæ á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli. Um er að ræða 800 fermetra hús að grunnfleti en því til viðbótar er starfsmannaaðstaða á tveimur hæðum í húsinu og heildargólfflötur er því um 1000 fermetrar. Samhliða lokafrágangi utanhúss hefst vinna við innahússfrágang strax eftir áramót.
Krefjandi aðstæður í Hlíðarfjalli
Súlur stálgrindarhús ehf. hefur með höndum allt stálvirki framkvæmdarinnar, þ.e. húsið sjálft frágengið með klæðningum, hurðum, gluggum og öðru tilheyrandi. Húsið er vottuð framleiðsla frá Kína og hófst uppsetning í september síðastliðnum. Kristján H. Kristjánsson, framkvæmdastjóri Súlna stálgrindarhúsa ehf., segir þetta stóran áfanga en þetta er jafnframt fyrsta húsið sem fyrirtækið reisir frá grunni.
„Af ýmsum ástæðum, tíðarfari í vor og fleiru, hófst vinna annarra verktaka við undirstöður ekki fyrr en komið var fram í júní og því gátum við ekki byrjað á uppsetningu hússins fyrr en í september. Aðstæður fyrir svona framkvæmd eru mjög krefjandi í Hlíðarfjalli og mjög algengt að hér niðri í bæ sé logn en stífur vindur á sama tíma í Hlíðarfjalli og ekki hægt að vinna með krana og við hífingar eins og svona framkvæmd krefst. En þrátt fyrir frátafir náum við að loka húsinu á þeim tíma sem við áætluðum þegar við hófumst handa í september og ég er mjög ánægður með það. Sú áætlun hefði ekki gengið eftir nema vegna þess samhenta og öfluga starfsmannahóps sem við erum með og þess baklands sem við höfum á öllum fagsviðum málmiðnaðar hjá Slippnum,“ segir Kristján.
Lokafrágangur við glugga, flasningar og þess háttar verður strax eftir áramót og mun ljúka í janúar en Kristján segir að bíða þurfi þess til næsta sumars að verktaki við uppsteypu ljúki við að steypa undirstöður fyrir stiga og svalir, sem verða þá síðustu stáleiningarnar sem húsinu tilheyra.
Verður bylting fyrir skíðasvæðið
Kristján Snorrason, verkefnastjóri nýframkvæmda hjá Akureyrarbæ, segir að nýja vélaskemman komi til með að breyta miklu fyrir starfsmenn og starfsemina í Hlíðarfjalli.
„Með tilkomu hússins verður hægt að geyma alla fjóra troðara skíðasvæðisins innandyra en á gamla verkstæðinu var aðeins hægt að hafa tvo troðara inni í einu. Húsið er líka staðsett nær skíðasvæðinu sjálfu og greiðari leið fyrir troðarana beint á skíðasvæðið, auk þess sem þeir eru þá ekki að þvera umferð skíðafólks eins og hefur verið. Starfsmannaaðstaða er á efri hæð í húsinu og þangað kemur skíðagæslan til með að flytjast í húsið, þ.e. vöktun á lyftunum og svæðinu í heild. Húsið er þannig staðsett að úr því er mun betra að hafa yfirsýn á svæðið en úr skíðaskálanum þar sem eftirlitið hefur verið,“ segir Kristján. Hann segist ekki reikna með að nýja húsið verði að fullu tekið í notkun á þessum skíðavetri en áhersla verði lögð á að geta sem fyrst notað húsið til að hýsa troðarana.





We welcome Daði Tryggvason to our team as the new Project Manager and Head of DNG Jigging Reels. Daði brings extensive and practical experience from both the fishing industry and public administration, which will serve him well in this new role. He holds a BSc degree in Fisheries Science from the University of Akureyri and has worked for over two decades on a wide range of projects within the sector. This includes many years at sea, both on trawlers and jigging boats equipped with DNG jigging reels. First-hand user experience with the company’s equipment is invaluable — particularly when it comes to product development and customer service. In addition to his time at sea, Daði has worked in aquaculture and most recently as a fisheries specialist at the Directorate of Fisheries, where he was responsible for quota allocations, licensing (including ICCAT and CITES), and customer relations. We look forward to the collaboration and are confident that Daði’s experience and insight will support the continued development of DNG Jigging Reels. https://www.slippurinndng.is/faeravindur

Við bjóðum Daða Tryggvason velkominn til liðs við okkur sem nýjan verkefnastjóra og yfirmann DNG Færavinda. Daði kemur með víðtæka og hagnýta reynslu úr sjávarútvegi og opinberri stjórnsýslu, sem mun nýtast vel í hans nýja hlutverki. Hann er með BSc gráðu í sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri og hefur starfað í yfir tvo áratugi við fjölbreytt verkefni innan greinarinnar. Þar á meðal má nefna áralanga sjómennsku bæði á togurum og handfærabátum, sem voru búnir færavindum frá DNG. Sú þekking sem fylgir beinni notendareynslu af búnaði fyrirtækisins er dýrmæt, sérstaklega þegar kemur að vöruþróun og þjónustu við viðskiptavini. Auk þess hefur Daði starfað í fiskeldi og síðast sem sérfræðingur í fiskveiðum hjá Fiskistofu, þar sem hann sinnti meðal annars úthlutun kvóta, leyfisveitingum (þar á meðal ICCAT og CITES) og viðskiptatengslum. Við hlökkum til samstarfsins og trúum því að reynsla og innsýn Daða styrki áframhaldandi þróun DNG Færavinda. https://www.slippurinndng.is/faeravindur