Öryggis og umhverfismál

Leiðbeiningar fyrir vinnu á athafnasvæði Slippsins.

Tilgangurinn með þessum leiðbeiningum er að benda á stefnu og starfshætti Slippsins í umhverfis- og öryggismálum (ÖHU). Sú stefna endurspeglast einnig í þeim kröfum sem Slippurinn gerir til þeirra sem koma á athafnasvæði Slippsins. Aðilum er einnig bent á að kynna sér innihald öryggishandbókar Slippsins. Þegar átt er við starfsmenn í leiðbeiningum er átt við alla starfsmenn sem vinna á athafnasvæði Slippsins, starfsmenn Slippsins, verktaka, undirverktaka, verkkaupa og aðra sem eiga leið um.

Umhverfis- og öryggisstjórnun hjá Slippnum

Slippurinn er fyrirtæki sem byggir á áratuga langri reynslu á sviði viðhalds og nýsmíði skipa sem og stálsmíði hvers konar. Slippurinn hefur tekið upp öryggis- og umhverfisstjórnunarkerfi. Með öryggisstjórnun tryggir Slippurinn heilnæmt og öruggt vinnuumhverfi fyrir starfsmenn sína og aðra tengda aðila s.s. undirverktaka og þjónustuaðila Slippsins. Með umhverfisstjórnun lágmarkar fyrirtækið umhverfisáhrif bæði í rekstri og verkefnum. Þetta er í samræmi við stefnu Slippsins um að vera í forystu á sínu sviði og láta gott af sér leiða.

Öryggisbúnaður og persónuhlífar

Nota skal þann öryggisbúnað og persónuhlífar sem skylda er að nota við viðkomandi störf samkvæmt lögum, reglugerðum, reglum Vinnueftirlits Ríkisins og öryggiskröfum Slippsins. Aðilar sem hafa starfsmenn á athafnasvæði Slippsins tryggja að allir starfsmenn á hans vegum noti og séu þjálfaðir í notkun öryggisbúnaðar og persónuhlífa og ber ábyrgð á því að búnaðurinn sé löglegur, heill og innan tímamarka í endingu. Persónuhlífar skulu vera CE-merktar og í samræmi við gildandi reglur.

Eftirfarandi reglur gilda um starfsmenn á athafnasvæði Slippsins og skilgreinir svo enginn vafi leiki á hvers konar öryggisfatnaði þeir skuli klæðast og hvaða persónuhlífar þeir beri.

  • Starfsmenn skulu bera öryggishjálm jafnt innan dyra sem utan nema annað sé tilgreint á viðkomandi svæði.
  • Þeir starfsmenn sem starfa eingöngu utan dyra klæðist sýnileikavesti eða öðrum sýnileikafatnaði auk hjálms og öryggisskófatnaðar.
  • Gerð er krafa um öryggisskó með stáltá og stálplötu í sóla.
  • Á skrifstofum, í mötuneyti og á kaffistofum leyfist að víkja frá stefnu Slippsins um persónuhlífar og öryggisfatnað fyrir starfsmenn.

Aðrar persónuhlífar eru notaðar eftir því sem við á hverju sinni og í samræmi við hættuna af störfum sem unnin eru. Eftirtaldar persónuhlífar eru fyrir mismunandi hættur: Hanskar af mismunandi gerð til almennrar notkunar í iðngrein viðkomandi starfsmanna, öryggisgleraugu þegar hætta er á að hlutir kastist í augu t.d. frá vélsögum, loftfleygum og slípirokkum sérstaklega. Að auki þarf að nota andlitshlífar, fallvarnarbelti með líflínu, heyrnarhlífar, öndunarhlífar með bæði ryksíum og efnasíum, hlífðargallar. Endurskinsfatnaður notast þar sem verið er að vinna í aðstæðum þar sem mikilvægt er að viðkomandi sé vel sýnilegur.

Til að ná góðum árangri í aðbúnaði, hollustuháttum, öryggis- og umhverfismálum á vinnustað þurfa allir starfsmenn að vera meðvitaðir og virkir þátttakendur.

Að auki þurfa starfsmenn sérstaklega að kynna sér:

  • Öryggishandbók Slippsins og vera meðvitaður um merkingar á athafnasvæði Slippsins sem tilgreina hættur og nauðsynlegan öryggisbúnað.
  • Verði starfsmaður var við ágalla eða vanbúnað sem leitt gæti til skerts öryggis eða lakari aðbúnaðar eða hollustuhátta, sem hann getur ekki sjálfur bætt úr, skal hann umsvifalaust tilkynna það öryggisverði, öryggistrúnaðarmanni, öryggisstjóra Slippsins eða næsta yfirmanns.
  • Olíutaka skipa á athafnasvæði Slippsins er með öllu óheimil nema í samráði við verkefnastjóra eða verkstjóra Slippsins Akureyri ehf.

Innganga í lokuð rými er með öllu óheimil án skriflegs leyfis

Vinna í lokuðu rými
Skriflegs leyfis er krafist fyrir inngöngu og vinnu í lokuð rými til staðfestingar á að gerðar hafa verið nauðsynlegar fyrirbyggjandi ráðstafanir fyrir inngöngu skv. verklagsreglu 9.5. Leyfið er eins konar gátlisti og tryggir að vinnuteymið átti sig á áhættuþáttunum og er reiðbúið að eiga við þá.

Umferð um svæði

  • Almennar umferðarreglur gilda á vinnusvæðinu. Akið ávallt varlega, hámarkshraði 25km/klst
  • Öll óviðkomandi umferð einkabifreiða um vinnusvæðið er bönnuð.
  • Almennt skal bílum lagt á bílastæði. Undantekning frá þessu er ef starfsmenn þurfa að flytja verkfæri eða efni á viðkomandi verktstað.
  •  Öll tæki og vinnuvélar á vinnusvæðinu verða að hafa fengið ársskoðun Vinnueftirlits ríkisins.
  • Allir stjórnendur vinnuvéla á svæðinu verða að hafa tilskilin réttindi Vinnueftirlits ríkisins til að stjórna viðkomandi tæki.


Viðbrögð og tilkynning slysa og næstum því slysa

Hringja skal í Neyðarlínuna í síma 1 1 2 ef upp kemur neyðartilvik eða slys á fólki. Tilkynna skal atburðinn til öryggisstjóra Slippsins og ef við á til Vinnueftirlits Ríkisins. Tilkynna skal næstum því slys til öryggisstjóra Slippsins sem sér um úrvinnslu tilkynningarinnar í skráningakerfi Slippsins.

Brot á þessu reglum, óörugg vinnubrögð svo og vanræksla á notkun viðeigandi öryggisbúnaðar er agamál sem mun leiða til eftirfarandi aðgerða:

  • Munnleg hvatning um úrbætur við viðkomandi sem og fulltrúa/yfirmanns starfsmanns
  • Skrifleg hvatning um úrbætur til fulltrúa/yfirmanns starfsmanns
  • Lokaviðvörun send skriflega til fulltrúa/yfirmanns starfsmanns

Vítavert kæruleysi í öryggis- og umhverfismálum eða endurtekin brot geta leitt til brottreksturs af vinnusvæði Slippsins án frekari fyrirvara.

Ábyrgð

Forvarnarstarf fyrirtækisins miðar að því að raungera markmið um enginn slys og lágmarka um leið áhrif reksturs á innra og ytra umhverfi. Stjórnendur á öllum stigum eru ábyrgir fyrir því að framfylgja og styðja öryggis-, heilbrigðis- og umhverfis stefnu (ÖHU) fyrirtækisins markvist á öllum tímum. Stjórnendum ber að efla almenna öryggisvitund starfsmanna með uppfræðslu og staðfestu. Stjórnendur skulu starfa náið með sínum starfsmönnum við útfærslur og lausnir ÖHU mála.

Umhverfismál

Slippurinn Akureyri leggur ríka áherslu á að allir starfsmenn séu meðvitaðir um umhverfisáhrif starfa sinna og leitist við að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum eins og unnt er. Starfsmenn skulu því ávallt hafa umhverfissjónarmið í huga.

Úrgangur

Úrgangur fyrirtækisins er flokkaður til endurvinnslu eins og hægt er og skilað til viðurkennds móttökuaðila. Eftirfarandi eru flokkar úrgangs sem við á til endurvinnslu:
Lífrænn úrgangur frá eldhúsi, dagblöð, tímarit og skrifstofupappír, sléttur pappi og bylgjupappi, filmuplast, hart plast og timbur. Einnig eru fernur, málmar og málmfilmur flokkaðar frá til endurvinnslu. Frekari upplýsingar um flokkun má fá hjá starfsmönnum Slippsins.

Spilliefni

Spilliefni eru efni sem keypt eru inn sem eiturefni og hættuleg efni. Dæmi um spilliefni eru rafhlöður, rafgeymar, málning, fúavörn, áburður, úrgangsolía og efnaafgangar sem ekki eru nothæfir og þarf að farga og eða koma til endurvinnslu.
Öllum spilliefnum skal haldið aðskildum frá almennum úrgangi og skila til viðurkennds móttökuaðila. Ef starfsmaður er í vafa um hvort efni telst spilliefni eða ekki skal leita upplýsinga hjá Efnamóttökunni hf. eða Heilbrigðiseftirlitsaðila.

Rafmagnsnotkun

Eitt af umhverfismarkmiðum Slippsins er að minnka notkun rafmagns. Lögð er áhersla á að fara vel með auðlindina og eru starfsmenn hvattir til að lágmarka óþarfa sóun þessarar auðlindar.

Viðbrögð við umhverfisslysi/atviki

Undantekningarlaust skal stöðva orsakir mengunar/skaða og koma í veg fyrir að mengun berist í umhverfið eða breiðist frekar út.
Hringja skal í Neyðarlínuna í síma 1 1 2 ef mengun eða umhverfisskaði er af þeirri stærðargráðu að ekki takist að bæta fyrir hann tafarlaust á staðnum.
Ávallt skal tilkynna atvikið til Öryggisstjóra Slippsins.