Nemendur frá GRÓ kynnast íslenskri tækni og þjónustu við útgerðir
15. apríl 2025
Nemendur frá GRÓ Sjávarútvegsskólanum heimsóttu Slippinn á Akureyri og fengu innsýn í starfsemi fyrirtækisins sem hluta af sérhæfðu námi í fiskveiðistjórnun.

Nemendur frá GRÓ Sjávarútvegsskólanum ásamt Hreiðari Þór Valtýssyni dósent við Háskólann á Akureyri í heimsókn hjá Slippnum á Akureyri.
Nemendur frá GRÓ Sjávarútvegsskólanum, ásamt Hreiðari Þór Valtýssyni, dósent við Háskólann á Akureyri, komu nýverið í heimsókn til Slippsins. Nemendurnir, sem koma frá fimm mismunandi Afríkuríkjum, fengu tækifæri til að kynnast starfsemi fyrirtækisins og fóru í ítarlegan skoðunarleiðangur um athafnasvæðið.
Heimsóknargestir voru Ben Kiddu frá Úganda, Frank Kabitina frá Tansaníu, Funny Mkwiyo og Kelvin Mkwinda frá Malaví og Nelly Kerebi frá Kenía. Þessi hópur er hluti af námslínunni Fisheries Policy and Management, sem kennd er við Háskólann á Akureyri undir stjórn Hreiðars Þórs Valtýssonar.
GRÓ Sjávarútvegsskólinn, einnig þekktur sem GRÓ Fisheries Training Programme, er einn af fjórum sérhæfðum skólum sem starfræktir eru á Íslandi sem hluti af þróunarsamvinnu Íslands. Sjávarútvegsskólinn sjálfur skiptist í fjórar námslínur, þar sem ein þeirra er staðsett á Akureyri og sérhæfir sig í fiskveiðistjórnun í víðu samhengi.
Nemendurnir, sem dvelja á Akureyri frá janúar til maí þegar þeir útskrifast, eru sérvalið og vel menntað fagfólk sem oft starfar hjá opinberum stofnunum eða ráðuneytum í heimalöndum sínum, sambærilegum við Fiskistofu á Íslandi. Námið leggur áherslu á heildstæða þekkingu á sjávarútvegskeðjunni, sem nær langt út fyrir hefðbundna kvótasetningu.
Heimsóknin til Slippsins var mikilvægur þáttur í námi þeirra, þar sem þau fengu innsýn í hagnýta þætti sjávarútvegsins og hvernig þjónusta við útgerðir er skipulögð og framkvæmd á Íslandi. Slíkar heimsóknir eru ómissandi hluti af náminu og veita nemendum tækifæri til að sjá hvernig fræðileg þekking nýtist í raunverulegum aðstæðum.
Þessi heimsókn undirstrikar mikilvægi alþjóðlegs samstarfs á sviði sjávarútvegs og fiskveiðistjórnunar, þar sem íslenskri þekkingu og reynslu er miðlað til sérfræðinga frá þróunarlöndum. Sú reynsla sem nemendurnir afla sér á Íslandi mun nýtast þeim vel þegar þeir snúa aftur til heimalanda sinna og taka þátt í að móta og þróa þar sjávarútvegsstefnu.

Sjávarútvegssýningin Iceland Fishing Expo 2025 stendur nú yfir í Laugardalshöll eftir að hafa verið sett í gær, og lýkur henni á morgun, föstudag. Slippurinn DNG er meðal þátttakenda og kynnir þar fjögur fyrirtækjasvið sín: Skipaþjónustu, DNG vinnslubúnað, DNG færavindur og Fiskeldi & iðnað. „Aðsókn á básinn okkar hefur verið mjög mikil,“ segir Hilmar Guðmundsson, sölu- og markaðsstjóri Slippurinn DNG. „Þetta er frábær vettvangur til að ræða málin við bæði núverandi og framtíðar viðskiptavini.“ Hilmar bendir á að áskoranir og tækifæri í viðskiptaumhverfinu séu alltaf til staðar: „Þá er mikilvægt að leita leiða til að auka hagkvæmni í rekstrinum — og þar koma hinar ýmsu lausnir sem við hjá Slippurinn DNG vinnum að í nánu samstarfi við viðskiptavini okkar,“ segir hann. Sýningin hefur hlotið góðar viðtökur meðal fagaðila í sjávarútvegi og veitir fyrirtækjum gott tækifæri til að kynna nýjungar og styrkja tengsl innan greinarinnar.

Slippurinn DNG verður á Sjávarútvegssýningunni í Laugardalshöll 10.–12. september. Við kynnum meðal annars DNG færavindur, Deep Trekker kafbáta og fjölbreytta þjónustu okkar. Sérfræðingar okkar verða á staðnum til að ræða við gesti um: Færavindur DNG Skipaþjónustu Brunvoll skrúfur og framdrifskerfi Fiskvinnslubúnað DNG Útbúnað og þjónustu fyrir fiskeldisiðnaðinn …og margt fleira. Velkomin á bás B26!

Fjarstýrðir kafbátar fyrir fiskeldi Slippurinn Akureyri er með umboð fyrir Deep Trekker , kanadíska neðansjávardróna – eða fjarstýrða kafbáta, eins og við köllum þá. Við höfum kynnt búnaðinn á vörusýningum undanfarin ár og fengið frábærar viðtökur. Nokkrir aðilar hafa þegar fjárfest í þessum lausnum og hefur notagildið sannað sig með glæsilegum árangri. Valdemar Karl Kristinsson, verkefnastjóri hjá Slippnum Akureyri, segir að Deep Trekker stuðli að auknu öryggi og hagkvæmni í rekstri fiskeldisfyrirtækja: „Með Deep Trekker kafbátum færðu fullkomið yfirlit yfir ástand neta og festinga án þess að þurfa að senda kafara niður. Þú sérð strax hvað þarf að laga eða viðhalda, sem sparar bæði tíma og kostnað og eykur öryggi.“ Net Patch Kit – einfaldar viðgerðir undir vatni Eitt af þeim verkfærum sem eykur þetta öryggi og skilvirkni er Net Patch Kit. Það festist ofan og neðan á Deep Trekker kafbát og heldur netbótinni með örmum framan við bátinn. Mótorinn að neðan tengist við gripbúnaðinn, og með stýringu á neðri arminum er hægt að minnka spennu í netinu til að staðsetja möskvann rétt og síðan losa til að skilja bótina eftir á sínum stað. Slippurinn Akureyri sér um að útvega festingar og uppsetningarbúnað, en viðskiptavinurinn útvegar sjálfur netið svo hægt sé að samræma efnið við það sem þegar er notað í kví fyrirtækisins. Sjá nánar í myndbandi hér að neðan. Fiskeldi undir stjórn – nákvæm skoðun, hreinsun og vöktun Með kafbát frá Deep Trekker er hægt að framkvæma reglulegar og nákvæmar skoðanir á netum og tryggja að festingar séu öruggar og þar með tryggja burðarþol og öryggi mannvirkja. Þetta er sérstaklega mikilvægt við uppsetningu nýrra kvía og til að uppfylla kröfur eftirlitsaðila. Með kafbát geturðu tekið stjórn á netaskoðunum, aukið skilvirkni í hreinsun og fylgst með slit- eða skemmdarhættu sem gæti leitt til slysasleppinga. Reglulegar skoðanir á kvíum og netum, ásamt vöktun á fiskiheilbrigði og fóðrun, ættu að vera hluti af daglegum rekstri. Með lausnum Deep Trekker er hægt að fá rauntímamynd frá neðansjávarmyndavélum, fylgjast með fóðrun, meta ástand stofnsins og greina hegðun fisksins. Þetta sparar bæði tíma og fjármuni. Hér fyrir neðan eru ítarleg og áhugaverð myndbönd sem sýna notkun og virkni Deep Trekker við raunverulegar aðstæður. Frekari upplýsingar veitir: Valdemar Karl Kristinsson valdemar@slipp.is Slippurinn Akureyri verður með Deep Trekker til sýnis á Sjávarútvegssýningunni í Laugardalshöll, dagana 10.–12. september, á bás númer B-26.