Slippurinn Akureyri var með 40 fermetra bás á sýningunni og var í hópi íslenskra fyrirtækja sem kynntu sína vörur og þjónustu í samstarfi við Íslandsstofu. Sýningin í Barcelona er haldin árlega og hefur aldrei verið stærri en í ár. Sýningin var nú haldin í 30. sinn en hún var áður haldin árlega í Brussel en flutt til Barcelona fyrir nokkrum árum þar sem er mun stærra sýningarsvæði. Sýningin dregur að sér sýnendur og víða að úr heiminum og er því meðal allra stærstu viðburða hvers árs í greininni.
Hilmar segir ekkert vafamál að með þátttöku í sýningun sem þessari sé Slippurinn Akureyri að ná til enn stærri hóps erlendra viðskiptavina.
„Hér á sýningunni kynntum við það sem við höfum að bjóða í skipaþjónustu þar sem við státum t.d. af öflugum upptökumannvirkjum og sérþekkingu í viðhaldi skipa, viðgerðum, málmsmíði, vélbúnaði og öðrum þáttum sem útgerðir þurfa á að halda. Við finnum líka að viðskiptavinir sjá mikla kosti í að geta sótt okkar öflugu þjónustu miðsvæðis við Norður-Atlantshaf,“ segir Hilmar en auk skipaþjónustunnar lagði fyrirtækið áherslu á að kynna tæknlausnir undir merkjum DNG vinnslubúnaðar, en þar er um að ræða bæði búnað fyrir skip sem vinnslur í landi.
„DNG vinnslubúnaðurinn er í mikilli sókn hjá okkur og vakti mikla athygli sýningargesta sú tæknilega geta sem við höfum til framleiðslu á vinnslukerfum, bæði heildarlausnum og einstökum tæknilausnum, allt frá hönnunarstigi þar til búnaðurinn er kominn upp og í notkun hjá viðskiptavinum. Viðskiptavinir sjá mikil tækifæri og hagræði að nýta sér þá miklu breidd sem við höfum í þjónustu og framleiðslu á búnaði hjá Slippnum Akureyri og sýningin núna undirstrikaði það. Við erum því hæstánægð með sýninguna og teljum hana hafa verið mjög árangursríka,“ segir Hilmar.